Skip to Content

STYRKIR

Með fyrirvara um að sjóðir gætu hafa uppfært markmið og skilyrði.

 

 

Hönnunarsjóður

Við úthlutun sjóðsins verður lögð áhersla á fjóra flokka: þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki. Megin hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

 

 

Hönnunarsjóður Auroru

Hönnunarsjóður Auroru hefur að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir íslenska hönnun með því að veita hönnuðum og arkitektum fjárhagslega aðstoð.

Markmið hans er að styrkja hönnuði til að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum, vörum og verkefnum á framfæri og aðstoða við vöruþróun og markaðssetningu hérlendis og erlendis. Einnig getur sjóðurinn haft frumkvæði að sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans svo sem að standa að viðurkenningum eða sýningum og vera samstarfsvettvangur hönnuða og aðila úr atvinnu- og viðskiptalífinu. Auk þessa miðlar sjóðurinn þekkingu á sviði hönnunar og arkitektúrs, í samstarfi við aðra aðila í faginu, eftir því sem við á. Hönnunarsjóði Auroru er þannig ætlað að styðja við bak efnilegra hönnuða, efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í greininni. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður 13. febrúar 2009, sem tilraunaverkefni til þriggja ára af Auroru Velgerðarsjóði, sem veitti til hans 25 milljónum í þrjú ár, eða alls 75 milljónum. Í lok þessa tímabils var ákveðið að halda áfram með sjóðinn og veita aftur til hans 75 milljónum til þriggja ára, eða til loka ársins 2015.

 

 

Launasjóður hönnuða

Hlutverk launasjóðs hönnuða, launasjóðs myndlistarmanna, launasjóðs rithöfunda, launasjóðs sviðslistafólks, launasjóðs tónlistarflytjenda og launasjóðs tónskálda er að veita listamönnum starfslaun og styrki samkvæmt lögum um listamannalaun.

 

 

Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda. Styrkirnir eru ætlaðir viðburðum eða verkefnum sem koma til framkvæmda á næsta ári.

 

 

Rannís Nýsköpunarsjóður námsmanna

Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Frá stofnun 1992 hefur sjóðurinn unnið sér nafn og gott orð fyrir vinnu mörg hundruð námsmanna og verkefna sem þeir hafa leyst af hendi fyrir tilstyrk sjóðsins.

 

 

Rannís Rannsóknarsjóður

Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi og skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja.

 

 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er að hvetja til nýsköpunar og efla framgang nýrra hugmynda í íslensku atvinnulífi. Nýsköpun er forsenda fyrir fjölbreytni íslensks atvinnulífs og undirstaða sterkrar samkeppnisstöðu þess. Á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar er að finna yfirlit yfir fjölmarga styrki og stuðningsmöguleika sem í boði eru.

Átak til atvinnusköpunar Hefur það markmið að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta. Styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla og sprotafyrirtækjum.

Framtak. Styrkir eru veittir til þróunar hjá starfandi fyrirtækjum á landsbyggðinni og fá þátttakendur faglegan og fjárhagslegan stuðning við þróunina og er markmiðið að koma samkeppnishæfri þjónustu eða vöru á markað innan 18 mánaða frá upphafi verkefnisins.

Frumkvöðlastuðningur. Markmið Frumkvöðlastuðnings er að styðja við nýsköpunarhugmyndir einstaklinga og smærri fyrirtækja með því að veita styrki til verkefna sem stuðla að framþróun viðskiptahugmynda. Með framþróun er átt við verkefni sem snúa að gerð viðskiptaáætlana, nýnæmisathugana, einkaleyfisumsókna, markaðsathugana, rekstrar- og fjárhagsáætlana, hönnunarverndar, hagkvæmnisathugana, þróunar vöru eða þjónustu, prófana og frumgerðarsmíða.

Skrefi framar. Styrkupphæð allt að kr. 600.000.Styrkur til að kaupa á ráðgjöf til nýsköpunar og umbóta í rekstri fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni.

 

 

Samfélagssjóður valitor

Hlutverk sjóðsins er að styðja margvísleg menningar-, líknar- og samfélagsmál. Umsóknarfrestur í sjóðinn er til 1. apríl og 1. október ár hvert. Umsóknum skal fylgja glögg og greinargóð lýsing á markmiði eða viðfangsefni, þó ekki meira en ein vélrituð síða að lengd. Prófskírteini, umsagnir eða önnur gögn eru frábeðin.

 

 

Nýsköpunarstyrkur Landsbankans

Markmið nýsköpunarstyrkja er að gefa frumkvöðlum tækifæri til að þróa nýja viðskiptahugmynd, eldri viðskiptahugmynd á nýju markaðssvæði eða nýja vöru eða þjónustu. Þeim er einnig ætlað að styðja frumkvöðla til kaupa á efni, tækjum eða þjónustu eða sækja námskeið sem sannanlega byggir upp færni sem nýtist við þróun viðskiptahugmyndar.

 

 

Samfélagsstyrkur Landsbankans

Landsbankinn veitir fimmtán milljónum króna í samfélagsstyrki í ár. Samfélagsstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarfs og sértækrar útgáfustarfsemi.

 

 

Auglýsinga- og styrktarbeiðnir Landsbankans

Landsbankinn styrkir ýmis málefni á hverju ári.

 

 

Borgun Auglýsinga- og styrktarbeiðnir

Borgun styður ötullega við margvísleg málefni í nafni MasterCard og annarra vörumerkja sem félagið hefur yfir að ráða. Fundað er vegna styrktarbeiðna einu sinni í viku og er öllum beiðnum svarað í kjölfar þess. Veittir eru styrkir í þremur þrepum 1.000.000 kr., 500.000 kr., 250.000 kr. Verkefni sem koma einkum til greina eru; starf mannúðarsamtaka og líknarfélaga, menning og listir, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarnar- og æskulýðsstarf, sértæk útgáfuverkefni.

 

 

Frá viðskiptaáætlun til framkvæmdar

Íslandsbanki og FKA í samstarfi við Opna háskólann í HR standa fyrir námskeiði í gerð viðskiptaáætlana og í framhaldi af því samkeppni um bestu viðskiptaáætlunina, fyrir konur. 2.000.000 í boði fyrir bestu viðskiptaáætlunina

 

 

Gulleggið

Innovit stendur árlega fyrir Gullegginu, frumkvöðlakeppni. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga.

 

 

Norræn dvalarsetur

Styrkir fyrir listamenn til dvalar á fjölmörgum dvalarsetrum á Norðurlöndum og í nokkrum öðrum evrópulöndum. Mismunandi reglur gilda milli setra.

 

 

Norræna menningargáttin | Kulturkontakt Nord

Styrkjaáætlanirnar eru tvær og eru opnar öllum lista- og menningargreinum. Umsóknarlotur sjóðanna eru mismunandi og eru nokkrum sinnum á ári. Norræna húsið er tengiliður sjóðsins og veitir frekari upplýsingar.

Menningar- og listaáætlunin:

Áætlunin veitir styrki til fagfólks og áhugafólks. Styrkirnir eru ætlaðir þeim sem koma að menningarstarfssemi og listamönnum, menningar- og listastofnunum og félagasamtökum sem starfa á sviði menningar og lista. 

a) Framleiðslumiðuð starfsemi (verkefni) Hægt er að sækja um styrk til mismunandi framleiðsluþátta verkefnis; rannsókna, framleiðslu, framsetningu og miðlunar.

b) Hæfnisþróun (fundahöld af ýmsum toga) Styrkur til verkefna sem leggja áherslu á hæfnisþróun og þekkingarmiðlun t.d. ráðstefnur, námskeið og vinnubúðir (workshop).

Ferða- og dvalarstyrkjaáætlunin:

a) Ferðastyrkir Ferða- og dvalarstyrkur til Norðurlandanna eða Eystrasaltslandanna. Styrkirnir eru fyrir fagfólk innan allra listgreina, höfunda fagurbókmennta, þýðenda, sýningarstjóra, framleiðenda, blaðamanna sem starfa við menningartengt efni, menningarfræðinga o.s.frv. Styrkir eru einungis veittir einstaklingum (ekki hópum) og almennt ekki veittir opinberum starfsmönnum eða embættismönnum við opinberar stofnanir.

b) Styrkir til tengslaneta Styrkir fyrir uppbyggingu tengslanets á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Styrkurinn gefur tengslanetinu möguleika á samstarfi ólíkra fagmanna, þróun samvinnu og að læra af hver öðrum. A.m.k þrjú lönd þurfa að taka þátt. Styrkirnir eru ætlaðir fagfólki í öllum geirum menningar og listar, menningar- og listastofnunum og félagasamtökum sem starfa á sviði menningar og lista.

 

 

Norræni menningarsjóðurinn | Nordisk Kulturfond

Sjóðurinn styrkir menningu og listir í víðum skilningi, bæði atvinnufólk og áhugamenn. Styrkir eru veittir fyrir m.a. ráðstefnur, málþing, tónleika, leikferðalög, sýningar, menningarhátíðir og rannsókna- og menntaverkefni. Verkefnið þarf að fela í sér samstarf a.m.k. tveggja norrænna landa og/eða sjálfstjórnarsvæða sem þátttakendur, framkvæmdaaðilar eða viðfangsefni. Einstaklingar, félagasamtök/tengslanet og stofnanir, auk sjálfstæðra og opinberra stofnana geta sótt um styrk. Umsækjendur geta verið búsettir/starfað hvort heldur er á Norðurlöndum eða utan þeirra. Styrkir nema yfirleitt ekki meira en 85% af heildarkostnaði. Sjóðurinn getur veitt styrki til skrifstofu- og launakostnaðar umsækjanda. Að jafnaði eru ekki veittir hærri styrki til verkefna en 500.000 DKK. Verkefni sem ætlað er að umsækjandi hafi fjárhagslegan ávinning af eru ekki styrkt. Sjóðurinn styrkir ekki verkefni sem ýtt er úr vör áður en sjóðnum gefst tækifæri til að afgreiða umsóknina, almennan rekstrarkostnað stofnana, kaup á tæknibúnaði, viðgerðir eða húsabyggingar, nám eða framhaldsmenntun einstaklinga, rannsóknastörf einstaklinga, námsdvalir og skólaferðalög, íþróttaviðburði, þýðingar á fagurbókmenntum og almennu fræðsluefni, tónsmíðar eftir pöntun, framleiðslu og útgáfu á hljómplötum/geisladiskum eða framleiðslu á tölvuleikjum, leiknum kvikmyndum, stuttmyndum, heimildamyndum, leiknu sjónvarpsefni eða sjónvarpsþáttaröðum.

 

 

Norræna nýsköpunarmiðstöðin - Nordisk Innovationscenter (NICe)

NICe fjármagnar norræn verkefni sem efla nýsköpun og samkeppnishæfni í atvinnulífinu og leiða til viðskipta, og eru með sjálfbæra þróun í huga. NICe skilgreinir nýsköpun sem: nýjar vörur, þjónustu, markaði, ferli eða skipulagslíkön sem skapa fjárhagslegan ávinning eða hefur nytsemi eða gildi fyrir samfélagið. NICe leggur áherslu á að ýta undir og hvetja til nýsköpunar í öllum atvinnugreinum og sviðum, þ.m.t. í opinberri stjórnsýslu.

Verkefni skulu beint eða óbeint leiða til viðskipta og þurfa m.a. að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

-að verkefninu standa þátttakendur frá þremur norrænum ríkjum hið minnsta

-50% mótframlag a.m.k., hvort sem það er í formi vinnuframlags eða peninga

-verkefnið verður að leiða til áþreifanlegs árangurs (ný hugmynd, vara eða þjónusta)

Hægt er að leggja inn umsóknir allt árið um kring, en umsóknarferilinn er í tveimur skrefum. Auk þess auglýsir NICe nokkrum sinnum á ári sérstök umsóknarköll með ákveðnum þemum og skilyrðum.

 

 

Atvinnumál kvenna

Reglur vegna styrkveitingar:

-Styrkhæf verkefni skulu vera í eigu kvenna (amk 50%) og stjórnað af konum.

-Verkefnið skal fela í sér atvinnusköpun til frambúðar.

-Um nýnæmi skal vera að ræða, annaðhvort nýja vöru/þjónustu eða þróun vöru/þjónustu

-Kröfur eru gerðar um að viðskiptahugmynd sé vel útfærð, markmið skýr og leiðir að þeim vel útfærðar.

-Verkáætlun skal vera vel útfærð og raunhæf og kostnaðar og tekjuáætlun vönduð, skýr og trúverðug.

-Kröfur eru um að verkefnið skekki ekki samkeppnisstöðu á þeim markaði sem varan eða þjónustan er á.

-Hámarksstyrkur er að jafnaði kr. 3.000.000 en ekki eru veittir lægri styrkir en kr. 400.000.

-Athugið að aðeins er hægt er að sækja um styrk vegna helmings af kostnaði verkefnis og þvi þarf að sýna fram á eigið mótframlag í umsókn.

-Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar (300.000), áætlanagerðar, þróunarkostnaðar og markaðssetningar - sjá nánar í umsóknareyðublaði.

-Ef fyrirtæki er nýstofnað en ekki komið í rekstur og/eða liggi trúverðug viðskiptaáætlun fyrir og viðkomandi að hefja rekstur er hægt er að sækja um styrk til að hrinda hugmynd í framkvæmd (launastyrkur fyrir viðkomandi styrkþega) Styrk má greiða í áföngum gegn skilum áfangaskýrslu og þarf að sýna fram á launaseðla þegar lokaskýrslu er skilað. 

-Ekki eru veittir styrkir til stærri fjárfestinga né rekstrarstyrkir.

-Vakin er athygli á því að styrkir eru skattskyldir og þarf að telja fram kostnað á móti.

-Kostnaður skal vera helmingi hærri en styrkupphæð nemur. Dæmi: Veittum styrk,  sem er kr. 500.000 að upphæð,  þarf að fylgja kostnaðaryfirlit upp að lágmarki 1.000.000. Leyfilegt er að telja 50% af styrkupphæð sem framlag styrkhafa.

-Ef sótt er um gerð viðskiptaáætlun þarf eingöng að fylla út Lýsing á viðskiptahugmynd, markmið og nýnæmi.

-Taka ber fram að styrkirnir eru ekki ætlaðir opinberum félögum eða félagasamtökum.

-Ekki eru veittir styrkir til útgáfu, námskeiðahalds og annara tímabundinna verkefna.

 

 

Hlaðvarpinn - Menningarsjóður kvenna á Íslandi

Hlaðvarpinn, er sjóður sem stofnaður er af hluthöfum Hlaðvarpans ehf. til styrktar menningarmálum kvenna á Íslandi.

Markmið sjóðsins er að styrkja menningarstarfsemi kvenna sem beinist að því að greina, efla, varpa ljósi á og breyta stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Með menningarstarfsemi er átt við hvers kyns listir, rannsóknir og kynningu á menningu kvenna.

Listir, rannsóknir og kynning á menningu kvenna nær til skrifa, sjónlista, sýninga, tónleika, útgáfu, uppákoma, kvikmyndagerðar, þáttagerðar, námskeiða, ráðstefna og hátíða sem tengjast menningarmálum sem og annað það sem fellur að markmiðum sjóðsins. Rannsóknir geta náð til einstakra þátta í menningu kvenna, menningarviðburða, einstakra verka, félaga og einstaklinga sem lagt hafa mikilvægan skerf til menningar kvenna.

 

 

Menningarráð Austurlands

Verkefnastyrkir:

Umsækjendur geta verið lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Austurlandi.

Menningarráð Austurlands leggur áherslu árið 2013 á fjóra flokka við úthlutun styrkja; stór samvinnuverkefni, minni samvinnuverkefni, minni svæðisbundin verkefni og verkefni einyrkja. Auk þess verða veittir undirbúningsstyrkir.

Stofn og rekstrarstyrkir:

Tilgangur styrkjanna er að efla starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs. Umsækjendur geta verið félög, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á svæðinu

 

 

Menningarráð vesturlands

Menningarráð Vesturlands úthlutar fjármagni til menningarverkefna á grundvelli umsókna og gerir skriflega samninga um skyldur styrkhafa vegna þeirra verkefna sem hljóta styrk.

Taka skal m.a. mið af því að:

-efla samstarf innan samstarfssvæða Vesturlands um menningarmál;

-efla menningartengda ferðaþjónustu á Vesturlandi og styðja sérstaklega við verkefni sem laðað geta að ferðamenn;

-efla starfsemi á sviði sagnahefðar;

-styðja við menningarhátíðir og viðburði í því skyni að auka menningarlega fjölbreytni;

-auka stuðning við menningarstarf ungs og aldraðs fólks;

-stofna til samstarfs við þjóðmenningarstofnanir;

-efla nýsköpun í verkefnum tengdum menningu og menningartengdri ferðaþjónustu;

-styðja við metnaðarfulla menningarstarfsemi sem er landsvæðinu til farsældar;

-efla nýsköpun í verkefnum tengdum menningu.