Skip to Content

Indriðaverðlaunin 2011

Fatahönnunarfélag Íslands veitti Indriðaverðlaunin í fyrsta sinn á opnun 10 ára afmælissýningar félagsins í Gerðarsafni laugardaginn 8. október kl.17. Verðlaunin verða veitt annað hvert ár þeim fatahönnuði sem þykir hafa skarað fram úr. Verðlaunin eru kennd við klæðskerann Indriða Guðmundsson, heitinn, sem þekktur var fyrst og fremst fyrir gæði og fagmennsku. Í ár hlýtur sá fatahönnuður Indriðaverðlaunin sem þykir hafa skarað fram úr á árunum 2009-2011.


Niðurstöður dómnefndar 2011:

Við val á hönnuði var litið til þeirra fatahönnuða sem eru með heilsteyptar fatalínur, hafa verið virkir á árunum 2009 og 2010 og þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði.

Verðlaunin eru innblásin af starfi Indriða Guðmundssonar og því eru gæði og fagmennska lykilorð við val hönnuðar, hvort sem kemur að hugmyndum eða frágangi. Dómnefndin telur að meginmarkmið verðlaunanna sé að leggja áherslu á góða og metnaðarfulla hönnun þar sem fagurfræði, vönduð efni og frágangur er í fyrirrúmi.

Niðurstaða dómnefndarinnar var að veita Steinunni Sigurðardóttur verðlaunin í ár. Dómnefndin var sammála um að hönnun Steinunnar sé metnaðarfull og að hún hafa skarað fram úr á sviði fatahönnunar. Hennar hönnun stendur bæði fyrir gæði og fagmennsku.

Steinunn hefur átt langan og farsælan feril sem hönnuður og hefur haft veruleg áhrif á fatahönnun á Íslandi.