Skip to Content

Indriðaverðlaunin 2015

Fatahönnunarfélag Íslands veitir Indriðaverðlaunin í þriðja sinn á Uppskeruhátíð félagsins laugardaginn 21. nóvember nk. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár þeim fatahönnuði sem þykir hafa skarað fram úr. 

Verðlaunin eru kennd við klæðskerann Indriða Guðmundsson, heitinn, sem þekktur var fyrst og fremst fyrir gæði og fagmennsku. Í ár hlýtur sá fatahönnuður Indriðaverðlaunin sem þykir hafa skarað fram úr á árunum 2013-2015.

Við val á hönnuði er litið til gæða hönnunarinnar allt frá hugmyndafræði til frágangs. Þegar kemur að góðri fatahönnun þarf ákveðið jafnvægi að ríkja milli sköpunargleðinnar og hins verklega. Hönnunarvinnan sem fer í hverja fatalínu er mikil og ferlið margslungið. Fjölmörg atriði koma við sögu í hönnunarferlinu, bæði stór og smá, en öll eru þau mikilvæg til að skapa vel heppnaða heildarmynd.

Epal mun líkt og við fyrri úthlutanir styðja Indriðaverðlaunin með hönnun og gerð sérstaks verðlaunagrips.

 

Meginmarkmið

Með verðlaununum vill Fatahönnunarfélag Íslands veita framúrskarandi fatahönnuði viðurkenningu fyrir starf sitt og framlag til íslenskrar fatahönnunar og beina ljósi að því besta sem er að gerast í íslenskri fatahönnun hverju sinni. 

 

Indriði Guðmundsson

Indriði var mikill talsmaður fatahönnunarverðlauna á Íslandi. Honum þótti mikilvægt að félagið ætti sína eigin uppskeruhátið þar sem félgsmenn hittust, ræddu málin og fögnuðu saman.

Indriði var fagmaður fram í fingurgóma og helgaði sig leitinni að hinu fullkomna sniði. Hann lagði gríðarlega áherslu á gæði og fagmennsku og eins og hann lýsti sjálfur seldi hann ekki skyrtur, heldur uppáhaldsskyrtur. Hann sagðist leitast við að gera fullkomnar flíkur, fjöldaframleiddi eftir gömlum aðferðum og bar mikla virðingu fyrir handverkinu ásamt sköpunarferlinu sjálfu.

Indriði lagði auk þess mikið upp úr efnisvali. Gott dæmi um það eru bindin hans, en hann framleiddi 14 tegundir af svörtum bindum og lá munurinn á þeim í vefnaðinum.

 

Ferill Indriða 

Indriði kenndi klæðskurð við Iðnskólann í Reykjavík árin 1994-2000 og síðar við Listaháskóla Íslands ásamt því að starfa við búningagerð. Árið 1995 fór hann til Dublin og nam hjá Des Leech, heldri manna klæðskera, en þar skrifaði hann kennslubók í efnisfræðum.

Árið 2000 hóf Indriði störf sem sjálfstætt starfandi sniðgerðarmaður fyrir íslenska hönnuði og verslanir. Má þar nefna Spakmannsspjarir, ELM og GK. Indriði var einn af stofnendum Fatahönnunarfélags Íslands.

Árið 2003 stofnaði Indriði verslun við Skólavörðustíg í Reykjavík. Þar verslaði hann með skyrtur og annan herrafatnað sem framleiddur var undir hans eigin nafni. Árið 2006 flutti hann verslun sína til Kaupmannahafnar og rak hana þar til hann lést þann 30. október sama ár.

 

Fyrirkomulag

Fimm manna dómnefnd, sem skipuð er af stjórn Fatahönnunarfélags Íslands velur verðlaunahafann. 

Við val á hönnuði er litið til þeirra fatahönnuða sem eru með heilsteyptar fatalínur, hafa verið virkir á árunum 2013 - 2015 og þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Verðlaunin eru innblásin af starfi Indriða Guðmundssonar og því eru gæði og fagmennska lykilorð við val hönnuðar, hvort sem kemur að hugmyndum eða frágangi.

 

Dómnefnd 2015

Erna Hreinsdóttir, ritstjóri á Nýju lífi og stílisti.

Eyjólfur Pálsson, húsgagnaarkitekt, fyrir hönd Epal.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Katrín María Káradóttir, fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands, verðlaunahafi Indriðaverðlaunanna 2013

Linda Björg Árnadóttir, lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands, fyrir hönd fagráðs Fatahönnunarfélags Íslands.