Skip to Content

Nýr Hönnunarsjóður

Mánudaginn 30. september hóf nýr hönnunarsjóður starfsemi en sjóðurinn var stofnaður af mennta- og menningarmálaráðuneyti í febrúar. Við úthlutun sjóðsins verður lögð áhersla á fjóra flokka: þróunar- og rannsóknarstyrki, verkefnastyrki, markaðs- og kynningarstyrki og ferðastyrki. Umsóknarfrestur rennur út 11. nóvember 2013. Sjóðinn er ekki að finna í fjárlögum fyrir árið 2014 en fjármagn hans fyrir árið 2013 er tryggt.

 

Megin hlutverk hönnunarsjóðs er að efla þekkingu, ásamt atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi. Sjóðurinn styrkir jafnframt kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að auknum útflutningi íslenskrar hönnunar.

 

Þróunar- og rannsóknarstyrkir

Er ætlað að styrkja rannsóknir og þróun nýrra hugmynda eða lausna. Þróunar- og rannsóknarstyrkir geta að hámarki numið 2 milljónum króna. Verkefni sem hlotið hefur þróunar- og rannsóknarstyrk á möguleika á að fá verkefnastyrk síðar.

 

Verkefnastyrkir

Er ætlað að styrkja nýjar hugmyndir eða lausnir sem búið er að þróa og móta og eru komin á útfærslu- og framkvæmdastig. Verkefnastyrkir geta að hámarki numið 5 milljónum króna. Verkefni sem hlotið hefur verkefnastyrk á möguleika á að fá markaðs- og kynningarstyrk síðar.

 

Markaðs- og kynningarstyrkir

Er ætlað að styrkja verkefni sem komin eru af útfærslu- og framkvæmdastigi og eru fullmótuð og tilbúin til markaðssetningar. Markaðs- og kynningarstyrkir geta að hámarki numið 2 milljónum króna.

 

Ferðastyrkir

Er ætlað að auka möguleika hönnuða og arkitekta á því að taka þátt í erlendum samstarfs- og kynningarverkefnum, sýningum, viðburðum, ráðstefnum eða viðskiptastefnumótum. Hægt er að sækja um ferðastyrk fyrir einn einstakling eða fleiri til sömu ferðar. Veittir verða allt að 30 ferðastyrkir að upphæð 100 þúsund hver. Styrkir eru ekki veittir til verkefna sem teljast til reglulegrar starfsemi hönnuðar eða fyrirtækis.

 

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu sjóðsins.